Færsluflokkur: Bloggar

Örhugsanir á afmælisdaginn!

Í dag á ég afmæli, síðustu ár hef ég vakað þangað til að afmælisdagurinn minn rennur í hlað og tekið við kveðjum um leið. En það fyrsta sem ég hef einnig gert á afmælisdaginn minn síðustu árin eru að breyta ég er xx að verða xx, ég breytti til dæmis inni á facebook að ég væri 17 ára og einnig hér inni, og þegar rennur upp nýtt ár breyti ég því, að ég sé 17 á 18. ári.

Ég er orðin hundgömul alveg, tek bóklega bílprófið á sunnudaginn og verklega í næstu viku, ef ég næ bóklega.

Ég veit um fullt af afmælisbörnum í dag, t.d. Robert Plant og Yrsa æskubestavinkona mín...

 

Nú þarf ég að skunda út, til sýslumannsins með umsókn og út í búð að kaupa í köku sem ég lofaði starfsfélögunum!


Ofbeldismenn...

Hér er færsla sem ég vil koma á framfæri, skrifuð af Ragnheiði Rafnsdóttur, mömmu Rafns. Ég vil biðja ykkur um að deila þessari færslu eins og þið getið.

Mikið hefur verið talað um ofbeldismenn og það er eins og ofbeldi fari vaxandi.....Hins vegar er eitt ofbeldi þar sem dylst oft og lítið er talað um í fjölmiðlum....Heimilisofbeldi.

 

Þetta mál stendur mér nærri og því tæpi ég á þessu hér.....Í yfir hundrað ár hafa konur(stundum karlar) verið beittar miklum hrottaskap af eiginmanni og hafa þurft að þola mikla niðurlægingu, sársauka og vonleysi... Hvað er verra en að vera beittur ofbeldi inn á þínu eigin heimili fyrir framan börnin sem þú elskar meira en allt annað....Maður getur spurt sig afhverju fara þessar konur ekki? Afhverju láta þær bjóða sér þetta? En svarið við því er að þegar búið er að brjóta manneskjuna svona niður þá er ákaflega erfitt að stíga út úr þessum aðstæðum og það krefst mikils hugrekkis(þessar konur ættu skilið að fá fálkaorðuna). Oft á tíðum er það óvissan um peninga, það að geta séð börnum sínum farborða og annað sem stoppar konuna og sú trú að allt verði gott einn daginn.....Þessar konur eru frábærir leikarar og ótrúlega góðar að fela aðstæður....

En þegar konurnar stíga út og sýna með því ótrúlegt hugrekki þá byrjar nú ofbeldið frá kerfinu. Það getur engin hjálpað, enginn vill og tekur á þessum málum...Það er yndislegt fólk sem vinnur í Stígamótum og kvennaathverfinu en ég er að tala um þá sem öllu ráða....

Það sorglega er að enginn er að hugsa um börnin, það spáir engin í hvað sem þeim fyrir bestu....Þau eiga að hitta ofbeldismanninn tvisvar í viku hvort sem þau vilja eða ekki....Hver lætur börn til ofbeldismanna? Hvaða móðir gerir það? Ef hún hins vegar gerir það ekki þá þarf hún að mæta fyrir rétt eins og versti sakamaður....Hverjum er verið að refsa í þessu máli? Ekki ofbeldismanninum, ó nei það er verið að refsa konunni sem var svo hugrökk að stíga fram og vildi með því binda enda á þjáningu sem bæði hún og börnin verða fyrir....Því er borið við að hún hefði átt að kæra manninn fyrr og koma með sannanir...Hvernig er hægt að sanna það að þú hafir verið kölluð heimska, fífl og ég vona að þú brennir í helvíti? Hvernig er hægt að sanna að þú hafir verið kölluð aumingi, hóra, asni og margt ennþá verra fyrir framan börnin þín?  Hvernig ætlar þú að sanna að þú hafir ekki fengið peninga til að kaupa mat handa börnunum þínum svo mánuðum skiptir?  Hvernig getur þú sannað að þú sért leið og sár út í sjálfa þig yfir að hafa ekki stigið fram fyrr?  Hvenær og hver þorir að taka á þessum málum? Hver býður sig fram? Það hefur engin gert....

Í þessu tilviki eru líf fjögurra barna í hættu....Ásamt lífi móður þeirra....Og þeirra sem standa þeim næst...Því þetta er eitthvað sem öll stórfjölskyldan þjáist fyrir.....Og eins og þetta sé ekki nógu erfitt þá er staðan sú að fórnarlömbin búa í fjarlægu landi, þ.e. heimalandi ofbeldismannsins. Búið er að leita til alla ráðuneyta, sendiráðsins, barnaverndanefnda og fleiri og fleiri hafa verið grátbeðnir að hjálpa en nei sorry við skiptum okkur ekki af þessum málum.....ég hef alltaf verið svo barnaleg að halda að sendiráðin okkar erlendis væru til að hjálpa löndum sínum í erfiðleikum en svo er ekki....Ég spyr fyrir hvern andskotann erum við að borga? Er það málið að við erum að leggja afdala stjórnmálamönnum til vinnu? Svo þeir geti haldið áfram að lifa hátt.....já mér er spurn....

Ég bið ykkur sem þetta lesið að senda þetta áfram þangað til einhver sér þetta sem hefur kjark, dug og vilja til að taka að sér erfitt mál sem þarf að beita hörku en á sama tíma mikilli góðsemd til þeirra sem eiga um sárt að binda....

Einnig vil ég benda þeim konum á sem eru að upplifa ofbeldi á heimilum að fara til lögreglunnar og láta skrá niður það sem þær verða fyrir.....Og ég óska ykkur alls hins besta.....

Ragnheiður Rafnsdóttir,kona, dóttir, eiginkona, tengdadóttir, móðir, systir, mágkona, svilkona, frænka, vinkona, kunningi, vinnufélagi.

www.bjarmalandsgengid.blog.is


Fleiri gleðifréttir + gullmoli

Góðan kvöldið kæra fólk, vikurnar fljúga frá mér, enda nóg að gera og það er svo gaman!

Ég sendi umsókn í Kvikmyndaskóla Íslands og fer í inntökupróf í maí, það er þó tvennt sem mun ekkert hjálpa mér við að komast inn og það er söngurinn og dansinn, vantar allar fínhreyfingar og líka fínu nóturnar. Ég hlakka samt ótrúlega til!

Og gullmolinn er status sem ég setti inn á facebook í gær, ég lofa ykkur því að ég er stundum rosalega vitlaus og kíki ekki í orðabók ef ég held að ég viti hvað orðin þýða.

Róslín A. Valdemarsdóttir finnst ekki sniðugt að fá "satisfactory" í umsögn í ritgerð frá Auri (Árý, enskukennarinn)..... en samt 7,7!

Komment:

Róslín A. Valdemarsdóttir
og neineinei, ég er alls ekki satisti, var að hrósa indverski menningu! (gæti verið satisti gagnvart okkar menningu?)

Og þá þurfti Sædís sys að vera gáfaðari en ég;

Sædís Ösp
hvað ertu að tala um ? þetta þýðir viðunandi eða ágætt ..

 

... enskukunnátta mín er ekki upp á marga fiska! Grin



Montblogg

Jákvæðar fréttir berast oft frá mér, svo mér finnst alveg sjálfsagt að segja frá því hvað hefur drifið á daga mína upp á síðkastið og örlítið um framtíðina!

Leikæfingar eru strangar og ganga ótrúlega vel held ég bara, hópurinn hittist að ég held vonandi allur saman í kvöld. Ég held ég megi ljóstra því upp að leikritið heitir hvorki meira né minna en Makalaus sambúð, ótrúlega skemmtilegt leikrit svo ég segi nú ekki meira um það.

Ég byrjaði að vinna á föstudaginn var í Nettó, fékk miða og allt að ég væri ný svo að ég fékk gott viðmót frá kannski óþolinmóðu fólki sem var að flýta sér á kassanum, en ég að sjálfsögðu frekar lengi enda aldrei gert þetta áður. Ótrúlega fínn vinnustaður og gott samstarfsfólk. Þess má geta að ég var alveg UPPGEFIN eftir daginn, þar sem ég var frá 8-12:25 í skólanum, 13-19:25 í vinnunni og 8- eitthvað á leikæfingu!

Skólinn gengur ágætlega og ekkert fleira um það að segja.

Herbergisframkvæmdir eru hafnar, förum að panta veggfóðrið og ég er komin útúr herberginu og inn í annað.

Og síðast en ekki síst þá er ég farin að hugsa mikið um að fara í bæinn sem fyrst í skóla, var að senda inn umsókn í Kvikmyndaskóla Íslands, en er því miður enn of ung, svo ég held ég komist ekki inn þetta árið. En það þýðir bara að ég bíð þar til næst og reyni aftur þá! Grin

Annars náði ég tónfræðiprófi sem ég var í áðan, og er rosalega glöð!

Hafið það sem allra best!


Kveðja inn í daginn - og takk fyrir NEI-ið!

Ég er voða þakklát fyrir að vera hluti af svona skarpri þjóð, að þora að segja nei. Við erum að vísu þrjósk og leiðinleg, enda ósanngjarnir samningar og Bretar og Hollendingar mega bara eiga þá!

Langaði bara að senda ofboðslega fallega kveðju til allra allstaðar í heiminum með fallegasta lagi í heimi og ljósmyndunum mínum.




P.S. Ég nota lagið í algjöru leyfisleysi og skammast mín ROSALEGA fyrir það, ef einhver þekkir til Emilíönu og getur haft samband við hana má sá og hinn sami benda henni á þetta og láta mig vita hvort ég eigi að taka þetta út eða hvort þetta megi vera.. mig langar ekkert til þess að láta uppáhalds tónlistarmanninninn minn kæra mig Blush ...

NEI!

Þar sem ég hef ekki kosningarétt vil ég bara koma minni skoðun á framfæri, og já, ég hef lesið bæklinginn sem var sendur heim. Ég hef fylgst með Icesave-deilunni og fýlupúkunum í Ríkisstjórninni sem ætla ekki að kjósa. Þeir sem kjósa ekki ráða engu - svo einfalt er málið.

Ég vildi að ég væri 18, bara til þess að ég gæti kosið í þessum sögulegu kosningum!

Annars langar mig lítið að tala um fréttir hérna innanlands, finnst þær óspennandi og þær ganga endalaust í hringi.

Fréttir frá mér, ég verð að uppfæra fréttalistann minn.

Þann 20. febrúar fór ég að sjá uppáhalds tónlistarmanninn minn (öllu heldur tónlistarkonu), Emilíönu Torrini, í Háskólabíóinu með frænku minni. Ég sat dofin í sætinu mínu og var mjög utan við mig, þetta voru yndislegir tónleikar í alla staði, og ótrúlegt hvað Emilíana er rosalega góð á sviði, þá meina ég almennt. Hún er einlæg og fyndin! Ég hafði hlakkað til þessarar stundar frá því í lok nóvember 2009, þegar ég hoppaði um heimilið mitt með tárin í augunum. Nú segi ég nú bara; mikið rosalega hlakka ég enn meira til næstu tónleika sem ég fer á, vona svo sannarlega að ég fái að upplifa það aftur!

Þegar ég var í bænum um þessa helgi kíkti ég á margt af fjölskyldu minni, og náði að hitta bæði ömmu og afa í Kópavogi og ömmu og afa í Keflavík. Einnig fór ég í Kolaportið, og varð mér úti um tvær Janis Joplin plötu, bol og Donnu Summer plötu.

Skólinn gengur þokkalega, mér þykir þó virkilega erfitt að aðlagast svona miklum lærdómi - hefði alveg viljað kynnast þessu fyrr í grunnskólanum. Framhaldsskóli er ekkert grín - nema ef maður er í leikhóp, sem ég er einmitt í. Við í Leikhóp FAS erum nýbyrjuð að æfa þrælskemmtilegt leikrit sem við frumsýnum svo... einhverntímann, ég er ekki viss!

Ég er farin að safna plötum, hljóðið úr plötuspilurum er einstakt, miklu flottara og stílhreinna. Ég á ekki margar, svo ég ætla bara að koma með listann og söguna á bakvið þær.

 Farewell Song, Janis Joplin - Pabbi á þessa plötu, en ég held að ég megi eigna mér hana, það fyrsta sem ég heyri með Janis Joplin, ég varð að prófa að hlusta á þessa plötu þegar við vorum að fara yfir plötusafnið hans pabba, vegna þess að ég vissi að Andrea frænka heldur upp á hana. Svona líka kolféll ég fyrir tónlistinni hennar!
Hér koma plötur sem Axel afi minn gaf mér:
Natty dread, Bob Marley & The Wailers - Held mikið upp á hann!
Á frívaktinni, ýmsir - Aðeins eldri íslensk lög
Með sínu nefi, Vilhjálmur Vilhjálmsson - Sígild tónlist, og svo falleg!
The great pretender, Dolly Parton - Mér finnst bara eitthvað svo magnað við þessa konu.
Flash Gordon, Queen - Ein uppáhalds hljómsveitin mín.
Greatest, Bee Gees - Ótrúlega flott hljómsveit!
Die Tanzplatte des jahres, Hugo Strasser - Afi sagði að ég og Rafn gætum æft okkur að dansa við þessa plötu, enda 13 lög fyrir 13 mismunandi dansa.
Í takt við tímann, Sinfóníuhljómsveit Íslands - Afi varð líka að láta mig fá þessa, ég hef hlustað á hana og finnst lögin ótrúlega flott, og Sinfóníuhljómsveitin er svo flott!!
Plötur sem ég hef keypt, meira að segja í röð:
Tímarnir okkar, Sprengjuhöllin - Fann hana óopnaða á 2000 kr. í  fyrsta skipti sem ég fór í Kolaportið, og varð að kaupa mér hana, fyrsta platan sem ég eignast sjálf.
Sleepdrunk season, Hjaltalín - Ég var á ljósmyndagöngu með Konum og ljósmyndum og við fórum og fengum okkur kaffi í Eymundsson á Skólavörðustíg og ég sá plötur þar og varð að kaupa mér eina. Þar kom plata nr. 2.
The Album, ABBA - Frænka mín fann hana í Góða hirðinum, eina það sem ég kannaðist við, og hlustaði mikið á ABBA fyrir tveimur árum svo ég varð að kaupa hana - á 200 kr!
Anthology, Janis Joplin - Fór að einum bás í Kolaportinu síðast þegar ég fór þangað (í annað skipti) og fékk þar þessa líka flottu plötu. Auðvitað tvær plötur, og með henni var líka
Pearl, Janis Joplin - sem ég varð að sjálfsögðu að taka með, og vegna þess að ég var komin yfir einhverja fjárhæð fékk ég að velja eina plötu undir borðinu og greip það fyrsta sem ég þekkti
Bad girls, Donna Summer - tók hana vegna þess að mér leist ekkert á það að vera þarna sitjandi á hnjánum á mér eins og kjáni.

Og núna, þegar ég skrifa þessa færslu er ég búin að umturna herberginu mínu, skrúfa nokkuð mikið niður og laga aðeins til og fer að þrífa. Ég er ekki manneskjan sem á bleikt herbergi, sem minnir eiginlega bara á prinsessuherbergi, svo því er verið að kippa í liðinn.

Og fyrst það er 6. í dag, þá er kannski gaman að segja frá því að í dag höfum við Rafn verið saman í 3 ár og 5 mánuði. Lífið þýtur áfram!

En nú verð ég að halda áfram!


Í tilefni sprengjudags!

Hér er kjánalegt myndband, þar sem ég er að reyna að segja frá því hvað ég er að gera. Er s.s. að sýna systur minni takt sem ég lærði í tónskólanum þegar ég var að byrja, kallast "saltkjöt og baunir, tyggjókúla". Ég veit að þetta er virkilega kjánalegt!

 

 

 

Eigið gleðilegan sprengjudag, þ.e. það sem eftir er af honum og ég hlakka til með krökkunum sem eru að fara út um allan bæ á morgun að syngja og fá nammi! Og að fá að vera í búningum!

UPDATE: Ég klúðraði þessu allsvakalega, fannst eitthvað skrýtið við þetta, og var að fletta því upp í huganum að það er kúlutyggjó, ekki tyggjókúla!


Áður óbirt efni..

Ég hef hér með ákveðið að birta birt og óbirt efni eftir mig inn í nýja viku, hvort sem það er á sunnudegi eða rétt eftir að hann er liðinn (jú, klukkan er víst gengin eitt). Ég ætla að halda þessu verkefni úti bæði hér á blogginu og í Glósum á Facebook, fyrir þá sem mig þekkja þar. Þetta verður ekkert hefðbundið form, heldur ætla ég að leyfa ykkur að fylgjast með því sem ég uni mér að gera, sem er rosalega margt!

En fyrsti birtingurinn er smásaga sem ég birti hér á blogginu í fyrra.


Hver var ég?

Vönkuð reisti ég mig upp af heldur hörðum stað. Nei, þetta gat ekki verið rúmið mitt. Eftir að ég hafði teygt úr mér og nuddað stírurnar úr augunum, sá ég að ég væri stödd í miðborg New York. Ég hafði þá lagt mig á bekk, allavega vissi ég ekki betur en að svo hafi verið. Þarna stóð fólk, eldri hjón, frekar hugguleg í fari, en vel klædd. Spurðu hvort ekki væri í lagi með mig, að ég hefði legið þarna frá því fyrr um daginn, þegar þau voru á leið í bankann. Ég leit betur í kringum mig, ákvað að bíða með það að standa upp og afþakkaði vatnsflösku sem frúin var að silast eftir í hliðartösku sinni.
,, Það er í lagi með mig, takk fyrir að hafa auga með mér,"
Svaraði ég, og hélt svo áfram eftir andartaksþögn
,, en ekki getið þið sagt mér hve langur tími leið frá því þið fóruð í bankann?"
Frúin, sem virtist ríkjandi í hjónabandinu, svaraði mér um hæl, eins og hún hafi búist við spurningunni.
,, Við gengum hér framhjá um 9.00 leytið, klukkan er núna rétt um 12.00 leytið, svo þú hefur verið hér í a.m.k. þær þrjár klukkustundir. "
Það var augljóst að þeim var ekki sama um mig, hversu furðulegt sem það nú er. Ég ætlaði að rífa mig upp af þessum stað, en fæturnir voru jafnþungir og blý. Þetta var frekar vandræðalegt, þar sem útgangurinn á mér var ekkert hróslegur, hvernig svo sem á því stóð.
,, Ertu viss um að þú spjarir þig, vinan?"
Hélt frúin áfram áhyggjufull.
,, Já, takk fyrir, ég verð að drífa mig!"
Ég dreif mig og mína blýfætur að næsta stóra glugga og speglaði mig í honum, ég varð að drífa mig, það voru aðeins tvær klukkustundir í starfsviðtalið mitt. Og ég ætlaði að fá þetta starf, ég var búin að bíða eftir þessum degi. Þegar ég sá mig í glugganum hélt ég að það ég myndi fá áfall. Þetta var ekki ég, nei, ég trúði þessu ekki. Ég var ekki sú sem stóð þarna, brúnt hárið, fölt andlitið, víðu gallabuxurnar og hettupeysan. Hver var þetta? Ekki var þetta ég?
Ég gekk upp að næsta manni, maður í frakka, með svartan kúluhatt og virðuleg gleraugu.,, Afsakið, geturðu sagt mér hvaða dagur er í dag?"
Maðurinn var heldur forviða að sjá, en svaraði af mikilli kurteisi.
,, Það er 15. júlí."
Það gat ekki verið, ég hafði misst 3 daga úr lífi mínu - hvert fóru þeir eiginlega? Ég hélt áfram að spyrja manninn sem var farinn að horfa verulega skringilega á mig.
,, Ekki geturðu sagt mér hvaða ár er? "
Maðurinn lyfti upp augabrúnunum en svaraði mér þó.
,, 1999 "
Ég gapti, hvernig gat það verið! Hver var þessi stelpa sem ég sá í spegilmynd minni. Hvað var að gerast!
,, Ertu alveg viss herra? Ertu viss um að það sé árið 1999?"
Maðurinn varð orðlaus og gekk í burtu. Þetta var of mikið. Ég hafði ekki misst af 3 dögum, ég hafði farið rúm 10 ár aftur í tímann. Fjandinn hafi það, þetta gat bara ekki verið. Starfsviðtalið sem átti að vera í dag, sem átti að ráða um framtíð mína, allt farið í bál og brennu. Hvar var ég eiginlega?.. Var ég í New York?
Ég hljóp að næsta leigubíl, en leigubílstjórinn virtist ekki taka eftir því að ég ætlaði inn í bílinn. En inn fór ég samt. Spurði hann hvar við værum, í New York. Ég bað hann um að keyra mig að heimili mínu, þar sem ég hafði allavega átt heima daginn áður. Ég hljóp upp stigaganginn og reyndi að opna, bankaði þar sem ég fann engan lykil í vasa mínum. Afsakaði mig þegar eldri maður kom til dyra, sagðist hafa farið dyravillt. Þegar ég tók í hurðahúninn á útidyrahurðinni í byggingunni, og eins lygilegt og það var, datt hann af. Ég reyndi að setja hann aftur í, en það heppnaðist svo vel að ég heyrði hurðahúninn hinu megin á hurðinni detta niður í tröppurnar. Ég var föst.
Það var engin önnur útidyrahurð, svo ég gekk að öllum dyrum og bankaði, en enginn virtist vera heima. Á efstu hæð ætlaði ég að banka, en þar var hurðin ólokuð, ég gekk inn heldur hrædd, en vonaðist eftir að sjá síma einhverstaðar þarna. En í hvern gæti ég hringt?
Ég fann símann, en kom auga á snúru sem var slitin. Þá var það farið í vaskinn. Það heyrðist hljóð frá hurðinni. Ég hafði skilið hana eftir meira opna en hún var áður en ég kom að henni. Það var umgangur, ég faldi mig uppvið næsta skáp sem ég kom auga á. Ég sá svartan skugga, það var maður, hár maður. Hann hélt á einhverju, þegar ég loksins áttaði mig á því kæfði ég ópið sem var að myndast. Hreyfði mig ögn og BAMM.

Ég missti undan mér lappirnar, og um leið vaknaði ég. Leit á klukkuna og svo á símann, þakkaði Guði fyrir að það væri 12. júlí, klukkan að ganga 01.00 að nóttu til. Ég fór inn í eldhús, náði mér í vatnsglas og teygaði úr því. Gekk inn í rúm og sofnaði sátt, ég hafði morgundaginn fyrir stefnu.

... ég ætlaði mér að fá þessa vinnu.


Róslín fer í leikhús!

Tvisvar hef ég farið í atvinnumannaleikhús. Árið 2008 var ég búin að suða í nógu mörg ár svo að mamma og pabbi buðu mér og systur minni, Sædísi, á Fló á skinni í Borgarleikhúsinu. Pabbi og mamma sátu neðarlega við sviðið, en við Sædís ofarlega fyrir miðju, á mjög góðum stað. Það sem meira var að það var bara eldra fólk í kringum okkur (eða ég segi kannski ekki eldra, yfir sextugu) og tvær stelpur rétt fyrir framan okkur sem voru nær Sædísar aldri frekar en mínum.

Ég hafði aldrei farið í leikhús þá, og var mjög undrandi þegar við komum inn í leikhúsið hvað allt var opið og bara að helmingur fólksins var eitthvað prúðbúið. Að sjálfsögðu mættum við í okkar fínasta dressi.

Þegar sýningin hófst get ég sagt ykkur að spenningurinn í maganum leyndi sér ekki, ég var komin með hnút, jafn stórann þeim sem ég fæ fyrir frumsýningar í þeim leikverkum sem ég hef tekið þátt í.

Sýningin byrjaði og við systur grenjuðum úr hlátri nær alla sýninguna, fólkinu í kringum okkur áreiðanlega til mikillar gremju. Systir mín eins skærrödduð og hún er og ég hávær og ég ætla ekki einu sinni að reyna að giska á það hvernig ég hlæ þegar ég græt næstum í leiðinni.

Ég var dökkklædd, í því fínasta sem ég gat farið í, af því sem var í boði og allt var mjög dökkt inni í Borgarleikhúsinu, ég féll algjörlega inn í kramið.

Í nóvember í fyrra, 2009, endurtókum við leikinn og tókum stefnuna í Þjóðleikhúsið, húsið sem ég hafði oft séð að utan, en dreymdi um að bera það augum innan frá. Þá var ég í litríkum blómakjól með hárið laust og hin svartklædd. Mér leið eins og ég væri að stíga inn í höll, og þegar ég kom inn fannst mér ég breytast í prinsessu í eigin kastala. Fólkið var allt svartklætt, nema ég, og örfáir voru í hversdagslegum fötum. Ungt fólk að afgreiða allstaðar, og piltur þeim megin sem við fórum inn, tók á móti flíkum og hengdi upp.

Þá fórum við á Brennuvarga, mjög táknræn og hrikalega flott sýning með afbragðsgóðum leikurum, og m.a. Ólafíu Hrönn sem er héðan frá Höfn.

Mamma rölti með mér í hléinu á milli hæða, og fólk horfði á mig eins og ég væri stödd í vitlausri árstíð (í sumarlegum blómakjólnum), mér var sama.

Eftir hlé hélt sýningin að sjálfsögðu áfram, og lok sýningarinnar var algjörlega toppurinn, öll lætin, sviðið og leikararnir! Ég fékk þvílíka gæsahúð enda hrikalega flott sýning!!

Ég stefni að því að fara á afmælissýningu Þjóðleikhússins, eða að plata foreldra mína með, það er eitthvað sem ég má ekki missa af.

Þó svo að ég eigi langt í land og geti alltaf skipt um skoðun, þá langar mig langmest til að losna við feimnina og verða leikkona, bæði í kvikmyndum og Þjóðleikhúsinu þegar ég verð stór! Því þegar ég steig inn og sá alla dýrðina, hugsaði ég bara; HÉR vil ég vera og leika á sviði þegar mér gefst færi á.

Ég get ekki beðið þangað til að Leikhópur FAS hefur störf!


Svolítið um daginn og veginn...

Hin daglega rútína hefur komið sér fyrir í lífi mínu aftur. Skóli, tónskóli, tónfræði, heimalærdómur og blak.

Mér hefur þó ágætlega tekist að brjóta þessa rútínu aðeins upp og farið alltof seint að sofa uppá síðkastið vegna þess að ímyndunaraflið og sköpunarþörfin í mér er komin úr fríi. Ég mála fram eftir nóttu og hef nú lokið við að setja upp herbergið upp á nýtt í kollinum á mér.

Í gærkvöldi fór ég að mála þar sem mig langaði svo mikið að eiga mynd af Janis Joplin til þess að setja upp í herberginu þegar það verður tilbúið. Hér er mynd af myndinni:

 Fyrsta tilraun svo þetta á að vera í lagi! Er sjálf mjög sátt við hana.

Málaði líka aðra stærri mynd, en ekki svona.

Í dag fór ég með Rafni og Freyju upp í Bergárdal, ótrúlega fallegt þar, og þið megið endilega sjá myndir af því líka.

 

 Bergárfoss var allur frosinn og hægt var að ganga á vatninu!



Freyja var voða hress og alltaf á hlaupum, algjört krútt!


Rafn við fossinn


Þetta var hrikalega flott!!


Og svo ein af okkur við fossinn, aðeins skakt brosið mitt enda mikil list að halda á hlunknum (frk. Sólrúnu myndarvél) og taka sjálfsmynd!

 

Annars hvað varðar Sri Lanka málið, þá hef ég ekki frétt neitt meira.

Þetta var bara svona smá uppfærsla,
knús!

OG JÁ, ég ætla að misnota mér stöðu mína og auglýsa eftir plötum með Janis Joplin, ég á eina, þessi mynd er framan á henni.

http://raymondpronk.files.wordpress.com/2009/10/janis_joplin_60s_color.jpg

Og svo er ég líka að vona að einhver eigi geisladiska með Emilíönu Torrini, ég sjálf á Me and Armini og Love in the time of science. Ég hef mikinn, endalaust mikinn áhuga á að fá geisladiska eða plötur með þessum tveimur flytjendum, ef einhver hefur ekki áhuga á því að eiga það og vill gefa eða selja mér má endilega senda mér póst á roslinvaldemars@gmail.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband