Róslín fer í leikhús!

Tvisvar hef ég farið í atvinnumannaleikhús. Árið 2008 var ég búin að suða í nógu mörg ár svo að mamma og pabbi buðu mér og systur minni, Sædísi, á Fló á skinni í Borgarleikhúsinu. Pabbi og mamma sátu neðarlega við sviðið, en við Sædís ofarlega fyrir miðju, á mjög góðum stað. Það sem meira var að það var bara eldra fólk í kringum okkur (eða ég segi kannski ekki eldra, yfir sextugu) og tvær stelpur rétt fyrir framan okkur sem voru nær Sædísar aldri frekar en mínum.

Ég hafði aldrei farið í leikhús þá, og var mjög undrandi þegar við komum inn í leikhúsið hvað allt var opið og bara að helmingur fólksins var eitthvað prúðbúið. Að sjálfsögðu mættum við í okkar fínasta dressi.

Þegar sýningin hófst get ég sagt ykkur að spenningurinn í maganum leyndi sér ekki, ég var komin með hnút, jafn stórann þeim sem ég fæ fyrir frumsýningar í þeim leikverkum sem ég hef tekið þátt í.

Sýningin byrjaði og við systur grenjuðum úr hlátri nær alla sýninguna, fólkinu í kringum okkur áreiðanlega til mikillar gremju. Systir mín eins skærrödduð og hún er og ég hávær og ég ætla ekki einu sinni að reyna að giska á það hvernig ég hlæ þegar ég græt næstum í leiðinni.

Ég var dökkklædd, í því fínasta sem ég gat farið í, af því sem var í boði og allt var mjög dökkt inni í Borgarleikhúsinu, ég féll algjörlega inn í kramið.

Í nóvember í fyrra, 2009, endurtókum við leikinn og tókum stefnuna í Þjóðleikhúsið, húsið sem ég hafði oft séð að utan, en dreymdi um að bera það augum innan frá. Þá var ég í litríkum blómakjól með hárið laust og hin svartklædd. Mér leið eins og ég væri að stíga inn í höll, og þegar ég kom inn fannst mér ég breytast í prinsessu í eigin kastala. Fólkið var allt svartklætt, nema ég, og örfáir voru í hversdagslegum fötum. Ungt fólk að afgreiða allstaðar, og piltur þeim megin sem við fórum inn, tók á móti flíkum og hengdi upp.

Þá fórum við á Brennuvarga, mjög táknræn og hrikalega flott sýning með afbragðsgóðum leikurum, og m.a. Ólafíu Hrönn sem er héðan frá Höfn.

Mamma rölti með mér í hléinu á milli hæða, og fólk horfði á mig eins og ég væri stödd í vitlausri árstíð (í sumarlegum blómakjólnum), mér var sama.

Eftir hlé hélt sýningin að sjálfsögðu áfram, og lok sýningarinnar var algjörlega toppurinn, öll lætin, sviðið og leikararnir! Ég fékk þvílíka gæsahúð enda hrikalega flott sýning!!

Ég stefni að því að fara á afmælissýningu Þjóðleikhússins, eða að plata foreldra mína með, það er eitthvað sem ég má ekki missa af.

Þó svo að ég eigi langt í land og geti alltaf skipt um skoðun, þá langar mig langmest til að losna við feimnina og verða leikkona, bæði í kvikmyndum og Þjóðleikhúsinu þegar ég verð stór! Því þegar ég steig inn og sá alla dýrðina, hugsaði ég bara; HÉR vil ég vera og leika á sviði þegar mér gefst færi á.

Ég get ekki beðið þangað til að Leikhópur FAS hefur störf!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú getur sko gert allt sem þú vilt Róslín. Bara hafa trú á sér! :) :) En já Brennuvargarnir er frábær sýning!!! :)

Nanna Imsland (IP-tala skráð) 6.2.2010 kl. 00:39

2 Smámynd: Jens Guð

  Það er gaman að lesa þessa lýsingu á upplifun af leikhúsferðum.

  Allir leikarar sem ég þekki eru rosalega feimnir.  Það er eitthvað samhengi þarna á milli.

  Í fyrra fór ég ásamt nokkrum vinnufélögum á fyrirlestur hjá þekktum leikara.  Hann var að farast úr stressi og feimni.  Síðan brá hann sér í hlutverk.  Fór í búning og varð allt önnur manneskja.  Fylltist samstundis ofur sjálfsöryggi og fór á kostum.  Við,  vinnufélagarnir,  tókum allir/öll eftir þessari afgerandi breytingu. 

  Þú ættir að prófa að bregða þér í hlutverk.

Jens Guð, 6.2.2010 kl. 23:57

3 Smámynd: Jens Guð

  Þessu skylt:  Ég hef unnið mikið með tónlistarfólki.  Þar er iðulega þessi sama staða.  Utan sviðs eru músíkantarnir feimnir og "back".  Um leið og þeir eru komnir á svið fara þeir í hlutverk og virka eins og sá sem valdið hefur.  Sýna takta sem þeir myndu aldrei fara í utan sviðs.

Jens Guð, 7.2.2010 kl. 00:00

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og ljúfar kveðjur :O)

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 9.2.2010 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband