Færsluflokkur: Bloggar
12.12.2009 | 01:37
Aðgát skal höfð í nærveru sálar - og hana nú!
Þið megið endilega hæla Facebook eins mikið og þið viljið, en ég hef séð mörg atvik þar sem meiðyrði eru notuð og ótrúlega mikil kaldhæðni í garð annarra. Ég rakst inn á mynd á ráfi mínu af stelpu, hún var ekki eins og nein af staðalímyndum dagsins í dag. Undir myndinni stóðu ótrúlega margar athugasemdir og eiginlega flestar heldur kaldhæðnislegar og ein t.d. var um það hvort að stelpan gæti ekki eitt út öllum myndunum af sér. Þetta er eiginlega bara ógeðslegt, og ég þekki fleiri svona tilvik, og þykir miður hvað fólk getur verið mikið fífl.
Fékk ábendingu frá Davíð hér í athugasemdunum hvernig maður ætti að gera print screen, svo hér fáið þið að sjá nokkur komment, þeirra til mikillar ánægju sjást engin nöfn og engar myndir.. veit ekki hvort þetta má, en mig langar bara aðeins að sýna ykkur keim af því sem ég er búin að lesa.
Þar hafiði það, þetta er ekkert djók, myndi samt gera þeim greiða með því að sýna nöfnin, en finnst það bara svo mikil skömm að geta leyft sér að koma svona fram.
Ég myndi taka "print screen" af einhverjum athugasemdunum sem eru við myndirnar hennar og sýna ykkur, ef ég væri ekki búin að færa mig yfir á MacBook og þannig vita ekkert hvort það sé yfir höfuð hægt.
Ef ég myndi lenda í þessu, þá myndi ég sýna einhverjum eldri eða jafnvel bara foreldrum mínum og þannig yrði talað við foreldra þeirra sem koma svona ömurlega fram. Takið eftir því að þar koma þau undir með fullu nafni og skammast sín ekkert fyrir að tala svona niður til fólks.
En að allt öðru, ég er í miðjum prófum, búin að taka dönsku og íslenskupróf í 103, gekk held ég bara nokkuð vel í báðum prófunum, á tvö eftir, og byrja að læra þegar ég vakna eins og enginn séu morgundagarnir.
Þar sem ég er fátækur framhaldsskólanámsmaður, þá sárvantar mig vinnu, sem ég get unnið þegar ég vil en hef ákveðin skilafrest. Ég held það sé erfitt að finna svoleiðis vinnu hérna innan sveitafélagsins, en mig vantar ofboðslega smáaura í mánuði. Ef þið vitið um eitthvað sem er laust og bíður upp á þessa möguleika (jú og það verður að vera þannig að ég geti búið hérna á Höfn..) þá megið þið láta mig vita.
Ég er vel skrifandi, hef brennandi áhuga á allskonar listum, ég tromma (hef reyndar bara verið að læra í einn og hálfan vetur), mála, teikna (ekki vel þó), elska að hlusta á tónlist, er ótrúlega hress, skapandi og er alltaf opin fyrir því að fólk komi með gagnrýni, ég get vel lagað villurnar mínar og finnst allt í lagi að orðavalinu mínu sé breytt, ég tek myndir, les bækur og þykir endalaust gaman að tala, svo má alls ekki gleyma því að mig langar mest til að verða leikkona þegar ég verð eldri (samt alveg strax líka) og ég get alveg unnið í hópum, mér þykir ekki leiðinlegt að tala við allskonar fólk og ég er yfirleitt bara mjög glöð og kát eða allavega þegar ég má til... OG munið, mig vantar bara smápening, ekkert mikið!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.12.2009 | 02:49
Hvað eiga fatlaðir, fangar, leikskólabörn og þeir sem láta ekki skólayfirvöld heilaþvo sig sameiginlegt?
Í sumar þá fór ég með mömmu í sannkallaða menningarferð þegar við vorum staddar í Grímsnesinu hjá ömmu og afa. Við fórum nefnilega á Sólheima, sem er ekki svo langt frá Grímsnesi. Falleg leið að keyra þangað, og alveg yndislegt umhverfi á Sólheimum. Við skoðuðum allt sem við komumst yfir, vorum heldur seint á ferð, en það var sannkallað sumar og rosalega fallegt þarna. Við gengum á milli húsa þar sem listasýningar voru, og í gegnum högglistagarð (afsakið, ég veit ekkert hvað svona garðar heita). Þarna voru góðar aðstæður fyrir sýningar, falleg búð og nóg um lífrænt ræktaðan mat. Ég hafði rosalegan áhuga á að kaupa listaverk þarna, en myndirnar sem ég heillaðist mest af voru því miður seldar, annars hefði ég keypt a.m.k. eina.
Fólkið sem býr þar og skapar þessa fallegu menningu er sérstakt, svo sérstakt að það er einstakt, sem mér þykir alltaf ótrúlega jákvæður kostur við fólk. Þetta er fólk með rétta hugsun - þau geta skapað sína eigin list, og hún kemur beint frá hjartanu og er svo falleg.
Börn á leikskólaaldri sem eru ýmist í leikskóla eða heima fyrir eru einstök líka. Skólar og landsyfirvöldin hafa ekki náð að heilaþvo þau, þau eru endalaust einlæg og þaðan kemur líka allt beint frá hjartanu og hvað þau eru að hugsa. Þó svo að ég þekki lítið til barna á þeim aldri - þá veit ég um nokkur og hef séð ýmsa krakka sem eru svo yndisleg. Þau skapa sína eigin list. Þau eru skapandi, geta endalaust sungið og sagt sögur, sínar eigin sögur og sín eigin lög.
Ég veit ekki hvort ég fer með rétt mál, en fangar t.d. á Litla Hrauni fá eflaust ef þeir haga sér sæmilega að sinna því sem þeir vilja gera, skapa tónlist eða einhversskonar list, teikna og skrifa. Þeir láta sköpunina flæða.
Krakkar sem hafa flogið misvel í gegnum skólana, en alltaf haldið þannig áfram að láta skólann ekki móta sig, heldur þau móti sig sjálf, hvernig manneskja þau vilja vera, þau eru yfirleitt skapandi. Vilja gefa af sér en falla oft undir sama hatt og aðrir. Unglingar eru allir drykkfelldir og algjörir asnar. Jú, við erum kannski öll dálitlir asnar í okkur, en það drekka ekki allir og það eru ekki allir sem koma óorði á sig, en fá það sama hvort þau bjóði upp á það eða ekki. Vegna þess að kynslóðirnar eru allar eins, eldgamla fólkið er voða gott, gamla fólkið gott en tautandi yfir unga fólkinu, foreldrarnir tauta líka og röfla, en svoleiðis er lífið bara.
.. en ég spyr, hvað eiga fatlaðir, fangar, leikskólabörn og þeir sem hlusta ekki á skólayfirvöld sameiginlegt sem flestir þingmenn hafa ekki?
Þið ættuð eflaust að vera búin að fatta það sem ég vil meina..
Ríkisstjórnina vantar lit, þau eru öll föl og líka þingmennirnir, þau þurfa að vera skapandi, brainstorma og hvaðeina til þess að koma okkur út úr vandanum... því ekki er hlustað á okkur hin!
Og nei, ég vil ekki að þau fari í ljós eða út til útlanda því það væri eflaust á skattborgaranna kostnað.
Minn tími mun koma, en lesið smáaletrið hér að neðan þrisvar yfir áður en þið samþykkið það..
Ég lofa engu um það hvort ég muni gera eitthvað gagn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.11.2009 | 16:46
Kreppuráð nr. 1
Ég var að þurrka á mér hárið eftir sturtu þegar ég fór allt í einu að hugsa um það hve sjaldan ég fer í klippingu.
Tvisvar hef ég farið að láta setja strípur í hárið á mér, örfáar því að mömmu langaði svo til að sjá mig með strípur í hárinu. Þær urðu ljósgylltar, voða sætar og fínar. Ég fór líka heldur oft í klippingu, og var komin með rosalega stutt hár í fyrrasumar, það náði rétt niður fyrir axlir.
Ég ákvað svo að safna hárinu mínu, ég lét hárið vaxa eftir sumarið í fyrra og fór ekki í klippingu fyrr en rétt fyrir jól. Lét þá bara snyrta þá enda sem voru farnir að klofna, þá styttist hárið um ekki meira en einn cm. Ákvað að vera ekki með neitt vesen aftur fyrr en í sumar, þá voru komnir nokkrir mánuðir, alveg örugglega 5-6 síðan ég fór í klippingu um jólin. Þá var tekið svipað mikið af endunum, ekki upp yfir einn cm, vegna þess að þess þurfti ekki. Núna hef ég ekki enn farið í klippingu, en á pantaðan tíma nokkrum dögum fyrir aðfangadag. Ég vona að það þurfi ekki að taka meira en cm af.
En til þess að halda klippingum algjörlega í lágmarki þarf maður kannski að vera að safna hári, vera stelpa/kona eða jafnvel bara þungarokkari... þið tókuð líka eftir því að ég talaði bara um að láta snyrta, maður þarf að vera sáttur við sinn háralit til þess að fylgja þessu kreppuráði, sætta sig við músabrúna- eða rollulitinn og/eða gráu hárin sem farin eru að myndast.
Mamma hefur reynt að safna hári, henni vex bara 70's vængir. Eitthvað svipaðir þessum
Ég væri svosem vel til í að hafa svona hár, hárið mitt er bara alltof mjúkt og rennur alltaf í sinn fasta farveg, rennislétt og kannski með einum sveip, ekkert spennandi.. ég hef þó litinn með mér í hag, sama hvað hver segir þá þykir mér minn háralitur mjög fallegur og ég þarf ekkert að fara í skol!
Kveðja frá þeirri hárprúðu...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.11.2009 | 01:00
Ef ég væri forseti..
frá Alþingi. Þá mundi ég líka þurfa að fara í fullt af veislum bæði hér heima
og í útlöndum. Svo þyrfti ég sjálfsagt að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum
halda þeim góðar veislur. Ég mundi hafa góðan einkabílstjóra og eiga fullt af
flottum bílum.
Framhald af því að ég ætla í "nánustu" framtíð að bjóða því fólki sem mér mun hafa þótt virkilega komið við mig af einlægni og yndislegheitum í fortíðinni, myndi mun frekar halda þeim góðar veislur heldur en þjóðhöfðingjum annarra landa. Ekki ræktuðu þeir mig eins og ég verð í framtíðinni - það er jú fólkið sem hjálpar mér bæði á slæman og góðan hátt sem mótar mig. En auðvitað fá þeir sem hafa komið fram við mig af virðingu og almennilegheitum bara aðgang...
Vegna þjóðarsálarinnar myndi ég afþakka að fara í allar óþarfaveislur út, enda á kostnað skattgreiðenda, og sömuleiðis veislurnar hérlendis. Ég myndi kannski bara halda veislu fyrir almenning, eitthvað fyrir alla.
Einnig langar mig alveg að keyra sjálf bara, á einhverjum ósköp þægilegum bíl sem yrði ekki dýr í rekstri, svo er óþarfavesen að vera að borga fyrir marga bíla ef maður notar bara einn í einu.
Að lokum þá langar mig ekki til að búa á Bessastöðum, mig langar til að vera nær menningunni. Forsetar eiga ekki að vera einhversstaðar út í sveit á milli himins og heljar, heldur í hjarta höfuðstaðarins, miðbænum!
.. ég held svei mér að ég þurfi að biðja enga aðra en sjálfa Vigdísi Finnbogadóttur um þjálfun og kannski að kenna mér smá aga og hvernig skal bera sig fram. T.d. þá má skemmtilega nefna það að ég beiti gaffli ekki rétt, er líklegri til að stinga mann á hol heldur en nokkurn tíma að ég sé að fara að halda kjöti eða þessháttar niðri til þess að geta skorið smærra, eða þegar ég sötra á súpu og jafnvel þegar ég smjatta og rek útúr mér tunguna..
En batnandi manni er best að lifa, og þó, ef þið þekkið til Vigdísar og getið komið því til skila þá langar mig ótrúlega til að hitta hana. Þó það yrði vandræðalegt, en ég meina, ég lýt upp til hennar og myndi af öllum Íslendingum velja hana eða Emilíönu Torrini til að hitta í eigin persónu.. en ég er að fara á tónleika Emilíönu þann 20. febrúar 2010, svo að það dugar í það skiptið, kannski rekst ég á hana hver veit - svo ég vil hitta Vigdísi!
Reyndar er það svo margt sem mig langar til að gera hérna innanlands sem ég sé mér ekki fært að gera á næstu árum allavega.. t.d. að fá að kíkja á æfingu í Þjóðleikhúsinu! Ég ætla að eiga heima þar, en ekki á Bessastöðum, það er eins og höll og ég verð eins og drottning!!
Nóg í bili..
Kveðja frá (kannski) framtíðarforseta Íslands!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2009 | 15:43
Athygliverð athugasemd
Ég veit ekki hverjum ég ætti að halda undir grun, en mér er svosem sama því að ég veit mjög vel að það líta margir þessu sama hornauga á mig. Akkúrat mörgum finnst ég asnaleg, glötuð, athyglissjúk og barnaleg.
Mig langar aðeins til að tjá mig um þetta.
Jú, ég get vel verið asnaleg og glötuð, þar sem það hafa ekki allir sama fatasmekk, lífsstíl og lífsmottó, enda væri heimurinn svo hrikalega venjulegur og eiginlega bara leiðinlegur ef allir væru eins og hefðu það sama fyrir stafni. Í svona litlum samfélögum lifa ekki nema fáar tegundir af fólki, þar sem það eru svo margir sem líta aðra hornauga og lítið um að velja. Þar getur hópþrýstingur líka spilað vel inn í.
Svo get ég vel tekið undir það að ég hef alltaf og er mjög oft barnaleg, en ástæða mín fyrir því er sú að ég tek lífinu eins og það er. Ég lifi í núinu en reyni samt að móta framtíðina aðeins með því, svo einfaldlega þykir mér bara allt í lagi að halda í barnið í sér. En ég get líka verið mjög alvarleg ef þess þarf og er ekki að þykjast vera nein önnur en ég er.
Ég hef alla tíð verið með vott af athyglissýki, en ég er samt mjög feimin þegar ég er í kringum fólk sem ég þekki lítið eða umgengst lítið. Þó er líka ekkert verra að vera með smá athyglissýki, þar sem maður kemst þá aðeins áfram og getur komið sér þannig á framfæri - svo er ekki mikið af feimnum leikurum og leikkonum. Mig langar nefnilega til að verða leikkona og ég held að fólk bara verði að vera með vott af athyglissýki til að njóta þess að leika fyrir framan fólk eða í kvikmyndum og þáttum.
Vona svo sannarlega að þetta skýri eitthvað út fyrir því fólki sem horfir eins á mig og "noname".
Annars er allt gott að frétta af mér, mér gengur þokkalega vel í skólanum svo ég kvarta ekki vegna þessa. Það hefur fjölgað í fiskabúrinu, fiskarnir mínir eru 8 og tveir af hverri tegund, ótrúlega flott að fylgjast með þeim...
Bið að heilsa ykkur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.10.2009 | 23:26
" Misheppnuð Lindsay Lohan "
Nei ég segi svona, þykir þetta samt ekki skemmtileg fréttamennska, paparassafréttir eru ekki mín deild. Engan veginn. Gæti ekki verið meira sama hver er með bumbu, hver gleymdi einum degi í ræktinni og fékk sér McDonalds og hver er með appelsínuhúð. Allt eru þetta ofboðslega eðlilegir hlutir, sama hvort fólk sé frægt eða bara venjulegt eins og reyndar allir eru.
Ótrúlegt að ég hafi bara komist einu sinni í fréttirnar, þ.e.a.s. á bls. 4 í Mogganum og allar þessar stjörnur sem eru bara að koma óorði á sig og aðra koma að minnsta kosti við í fréttum einu sinni á dag. Óásættanlegt.
Ég tek þessu þó bara með stóískri ró. Mín frægð kemur einn daginn, ég skal sko segja ykkur það, minn tími mun koma.
En til að halda í glensið og bara til að vera smá fyndin, þá var ég að pæla í því að Davíð Oddsson er svona álíka þekktur og Lindsay Lohan bara á íslenskan mælikvarða - hvað myndi fólk gera ef það myndi birtast svona frétt um hann?
Fyrirsögnin gæti t.a.m. kannski verið eitthvað í þessa áttina ,, Davíð Oddsson (51) með appelsínuhúð? " og svo myndi birtast mynd af honum að synda í Laugardagslauginni... nei segi bara svona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
20.10.2009 | 18:58
Peningamálin og ESB-ið
Jú, ég keypti mér ukulele gítar, kann ekkert á hann og spilaði á hann falskan þangað til að Rafn hjálpaði mér að stilla hann. Pabbi bað hann meira að segja sérstaklega. Ég kann eitt lag, það er með White stripes, heitir Seven nation army ef ég er með þetta allt á hreinu. Hann kostaði líka slatta.
Það má þá líka fylgja að ég fæ ekki allt sem mig langar í - og þess vegna þarf ég að kaupa það fyrir mína peninga, sem þykir sjálfsagt, og er það í sjálfu sér.
Þá kemur að því sem ég hef mikið pælt í heldur lengi - er virkilega hægt að finna vinnu sem hentar manni algjörlega. Ég t.d. er í skóla, og mig langar í vinnu þar sem ég get unnið vinnuna mína heima og skilað fyrir ákveðinn tíma og fengið allt í lagi laun fyrir þau (t.a.m. til þess að eiga efni fyrir jólagjöfunum, allt hefur hækkað sjáiði til, ekki borga mamma og pabbi jólagjöfina frá mér til þeirra)..
Vinnumarkaðurinn á Íslandi er ótrúlegur, enga vinnu að fá, þó um heilmikla atvinnumöguleika er að ræða. Atvinnustarf eins og ég orðaði það svo vel einhvern tíma.
Það er held ég nóg um vinnu, það er bara að kunna að leita - t.d. er alltaf hægt að flytja út á land, Reykvíkingar sem eru að borga alltof háa leigu og fá ágætislaun þar á meðal!..
Annars ef einhverjum dettur eitthvað sniðugt í hug, sendið mér endilega línu, þið finnið netfangið, það er hérna á vinstri hönd.
Svo svona af því hve mikið ég fylgist með öllu, þá vil ég eindregið benda á þessa síðu;
www.heimssyn.is
Þar sem ég hef ekki lögaldur til að skrá mig, hvet ég alla þá sem hafa áhuga á að kynna sér síðuna og ef einhver áhugi liggur fyrir að endilega skrá sig!
Eitt veit ég þó og veit vel, að mig langar ekki til að framtíð Íslands felist í því að ganga undir nafni ESB, langar fólki virkilega að verða aftur að svolítið ósjálfstæðri þjóð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.10.2009 | 23:57
Tildrög að mótmælum..
Mér er alveg sama hver er ritstjóri Morgunblaðsins, ég er ekki hætt á moggablogginu, það er ekki mitt mál hver er ráðinn í ritstjórn þess pólitíska blaðs (viðurkennið það, það er og hefur alltaf verið þrælpólitískt blað, alveg eins og Þjóðviljinn og öll þessi gömlu blöð, þetta hefur bara fengið að lifa..).
En talandi um pólitík, þá barst mér í pósti kl. nákvæmlega 16:28 fyrr í dag póstur frá flokki, ég hef að minnsta kosti beðið um að skrá mig tvisvar úr þessum blessaða flokki sem ég asnaðist til að skrá mig í. Ég er líka búin að biðja um að hætta að senda mér fjölpóst frá þeim, mér er alveg sama hvað þau eru að spá og hvort það sé fundur hjá þeim kl. þetta þarna og hvort þau séu komin í nýtt húsnæði. Ég bý í fyrsta lagi út á landi, svo ég er ekki að nýta ferðarnar mínar í bæinn til þess að fara í hús flokksins og fá frítt kaffi og einhverjar kökur örugglega keyptar í Bónus. Þar sem ég drekk fyrst og fremst ekki kaffi og get alveg keypt mínar kexkökur sjálf í Bónus, allavega myndi ég frekar skipuleggja ferð í þá búð heldur en nokkurn tíma í samkomuhús einhvers flokks út í bæ.
Mér þykir það fullgróft að þurfa að segja mig úr ungliðahreyfingunni í þriðja skipti, svo ég læt hér með kyrrt liggja, nenni ómögulega að senda eitt bréfið til sama aðilans og biðja um afskráningu..
svo segi ég bara eins og allir aðrir;
ÉG MÓTMÆLI!...
Bloggar | Breytt 3.10.2009 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.9.2009 | 00:42
Kvenleiki og karlmennska
Sýningin er opin í tvær vikur, ég mæli eindregið með að allir sem geta farið upp í kringlu eða eigið leið hjá að endilega gefið ykkur tíma í að skoða myndirnar okkar - þetta er einstakur viðburður!
Ég annars var búin að lofa sjálfri mér að vera góð og kaupa eitthvað lifandi inn í herbergið mitt, svo að á leiðinni í bæinn stoppuðum við pabbi á Selfossi og ég keypti gullfiska, voða sætir og fínir.
Tók myndir af þeim, Emilíana Dalla og Guðlaugur Baldur heita þau, Emilíana virðist vera með sundmaga, held ég.. bíð og sé!
Þetta mun vera Emilíana Dalla
Óskýr mynd af Guðlaugi Baldri
Hérna eru þau samankomin!
Ég gleymdi hinsvegar kortinu heima en ekki myndavélinni svo að ég tók engar myndir af sýningunni, en ég hitti alveg fullt af yndislegum ljósmyndavinkonum, ömmur og afa, systur mína, frænkur og bloggvinkonu svo eitthvað sé nefnt í þessari ferð.
Jú, og svo fór ég í fyrsta skipti á ævi minni í Kolaportið, fann þessa fínu óopnuðu plötu með Sprengjuhöllinni, og ég get svo sannarlega staðfest það að ég mun fara aftur og gefa mér góóóðan tíma til að fletta í gegnum allt sem þar er!
Gott að leyfa því að fylgja að ég átti afmæli í ágúst og byrjaði í framhaldsskóla!
Eigið góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.8.2009 | 00:45
Að draga fána að húni - alls ekki hvers manns..
Ég flaggaði í fyrsta skipti í lífi mínu í dag, það er ekki frásögu færandi hvað ég gerði mig að miklum asna við það athæfi. Það byrjaði allt á því að áður en ég fór af stað upp á Byggðasafn hringdi ég í hann föður minn og spurði hann hvort styttri eða lengri spottinn á íslenska fánanum ætti að snúa upp eða niður. Þegar ég var komin á áfangastað fann ég ekki réttu fánana, leitaði inni í skáp og fann þar einn íslenskan fána og annan hornfirskan. Ætlaði með þann íslenska út, tók eftir því að þetta væri ekki sami fáni og vanalega, hringdi í pabba og spurði hvort það væri í lagi, hann hélt það nú. Þá fór ég út og flaggaði íslenska fánanum. Náði í hornfirska og nei, var það þá ekki risastór fáni, alveg pottþétt ekki sá sem var flaggað vanalega.
Þá fór ég að hugsa, hringdi í Bryndísi samstarfskonu og mömmu vinkonu minnar (sem einmitt bjargaði mér algjörlega í morgun með því að sækja lyklana sem ganga að Byggðasafninu og kom með þá til mín) og spurði hana hvort það væri í lagi að ég væri ekki að flagga hornfirska.
Eftir samtalið fór ég inn, gekk frá hornfirska fánanum á sinn stað, sá ég þá fánana sem ég átti að flagga. Það var nefnilega rigning í gær, og engin smá!
Þarna voru þá fánarnir, ég skottaðist út og tók íslenska fánann niður (passaði mig að sjálfsögðu að setja hann ekki í jörðina). Út með hinn íslenska fánann, það var ekkert mál, fór inn aftur og náði í rétta hornfirska fánann og byrjaði á því að fullvissa mig um að hann sneri nú pottþétt rétt. Ég var búin að draga hann alveg upp þegar ég horfði á hann og hugsaði ,, nei andskotinn, ef einhver er að horfa á mig, þá hlýtur sá og hinn sami að liggja á bakinu af hlátri..... ".
Ég dró fánann niður og setti hann rétt á, dró hann upp og festi og gekk hröðum skrefum inn í húsið aftur, og fylgdist alltaf með því hvort að fánarnir væru nokkuð horfnir.
Það allra fyndnasta við þetta var það að ekki svo langt frá var amma hans Rafns, Svava með litlu systur Rafns, hana Aðalheiði að labba, og ég vona svo innilega að þær hafi nú ekki tekið eftir þessum sauðagangi í mér!
E.s. Ég las næstum heila bók á fjórum klukkustundum, það er bara 1/3 eftir af bókinni, 158 blaðsíðna bók. Verð aldeilis að byrja að lesa aftur - það fær mig líka til að langa að skrifa..
VÁ hvað ég sakna þess að segja þetta fyrir framan netþjóð;
KNÚS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)