Færsluflokkur: Bloggar
31.8.2008 | 20:08
Af hverju kreppa?
Á meðan stjórnendur þjóðarinnar ( við lifum í lýðræði munið þið...) skjótast hingað og þangað um jörðina ýmist á allskonar þotum og flugvélum á peningum skattborgara, ríkir kreppa hér, til hvers og hvers vegna, af hverju er kreppa?
Ég spurði þessara spurninga við kvöldmatarborðið þar sem ég sat og borðaði of-vel grillaða svínasnitselið, og fékk það svar frá mömmu að ég ætti að spyrja hina og þessa. Allt einhverja stjórnmálamenn og banka. Getur lýður landsins ekki útskýrt ástandið fyrir mér hér á landi, eða verð ég að gerast svo háttvís og senda stjórnmálamönnum, jafnvel forsetanum okkar e-mail, eða handskrifað bréf, svo það berist pottþétt á Bessastaði?
Annars hef ég verið að skrifa oft og margsinnis sömu stafi og sömu tölur í dag, er að læra heimavinnu fyrir grunnteikningu og þurfti að skrifa langan texta, skrifaði stutta sögu sem ég set hérna inn, hún er alfarið á minni ábyrgð og mínu hugmyndaflugi. - Ég hef líka svoleiðis, og ég get svo vel ímyndað mér þetta!
Einu sinni, fyrir langa, langa löngu, á steinöld voru svokallaðar járnhænur uppi.
Ósköp sjálfbjarga en sjaldgæfar og sjaldséðar járnhænur. - Kannski ekki skrítið, enda aðeins 3 eintök. Allar bjuggu þær á Bermudaeyju, í einni kös í helli langt frá sjónum. Járnhænurnar voru rosalega mismunandi að lit, í skapi og hegðun.
Sú fyrsta var appelsínugræn og var rosalega flughrædd. Járnhæna nr. 2 var fjólugrá og mjög svo vatnshrædd.
Þriðja og síðasta járnhænan var skitublá og át ekki kjöt. Þær áttu eitt sameiginlegt, það var að þær voru allar með brynju sem náði niður að hnjám. Og Það kaldhæðnasta við nafnið járnhæna og brynjur þeirra var það að brynjurnar voru úr stáli og ekkert fannst járnið í hænunum.
Þegar grey hænurnar uppgötvuðu það, stökk sú skitubláa út í sjó og hinar tvær á eftir. Sú fjólugráa dó við magaskellinn og hinar drógu hana upp og suðu hana í raspi. Skitubláa sprakk í loft upp af fyrsta bitanum og sú appelsínugræna varð svo hneyksluð og einmanna að hún flaug upp í geim og klessti á Plútó og dó.
( Lét mömmu lesa söguna, og það kom mér á óvart að hún hló, sagan er ekki vitund fyndin heldur háalvarleg...)
- Hversvegna er ekki sérnámskeið fyrir örvhenta til að skrifa betur????
Þegar stórt er spurt, hefur margur ekki þor í að svara...
Gangið hægt í .... kreppunnar? dyr!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
31.8.2008 | 12:36
Skúffukaka!
Er það ekki annars sunnudagar til sælu?
Ég er að bíða eftir skúffukökunni inní ofni, og brátt fer ég að hræra í krem.
Langbesta skúffukaka sem ég veit um, enda svona "fjölskylduuppskrift" ef svo má nefna hana.
Þarf að læra fyrir framhaldsskólafögin líka í dag, held að megnið af deginum fari í það, að læra skrifa eins og fullorðin manneskja. Mér tekst það aldrei, líður eins og 1. bekking sem getur ekki hermt eftir skrift foreldra sinna. Það var nefnilega alltaf punktaskrift sem mamma gerði og ég dró línurnar í gegn, því ég gat þetta aldrei ómögulega!
Endilega lítið inn í köku og mjólk, annars vona að þið eigið góðan sunnudag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.8.2008 | 00:41
Þorgerður Katrín og Bejing-málið!
Þar sem ég er að mestu leiti mjög stjórnmála-pólitíkusarfötluð manneskja ( já, ég veit að ég tel mig vita eitt og annað...) þá rakst ég á frétt á Vísi.is. Ég veit ekki, og er ekki búin að kanna hvort sama frétt, eða svipuð frétt sé hér á mbl.is enda nægir þessi heimild mér. Allavega hingað til.
Þorgerður Katrín - eitt af nöfnunum sem ég man og þekki hana á andlitinu. Sú fræga kempa, er núna þekkt fyrir að fara tvisvar til Peking á Ólympíuleikana, þá sömu. Á andvirði 600 þúsund án hótelgistingar og Guð má vita hvað og hvað - svo fylgdi maðurinn með, muniði. Á kostnað þjóðarinnar, eða allra yfir 18 ára aldri sem eru vinnandi menn og konur og borga í skatt. Er ég ekki enn að tala um það sama og allir aðrir? Þið verðið að láta mig vita ef ég færi mig yfir á vitlausa teina, þar sem það gæti valdið járnbrautarslysi!
Íþróttamálaráðherra, skírir sig alveg sjálft. Það er Þorgerður Katrín, sem sýnir dygga aðdáun, sem er hreint út sagt aðdáunarverð ( að mínu mati allavega ), á íslenska handknattleiksliðinu okkar. Strákunum "okkar".
Ingibjörg Sólrún, Utanríkisráðherra, eða hvað sem það heitir nú, ferðast hún ekki út um allan heiminn á okkar kostnaði líka. Til að segja hæ og ræða um einhverja af og til mjög svo ómerka hluti?
Stoppið mig ef þetta er eitthvað rangt hjá mér. Í fyrstu var gert mál úr þessu, svo hvarf þetta bara með vindinum í fullan haug af svona sandkornum - sem skipta engu máli.
Ég píndi mig naumast til þess að horfa á móttöku íslenska landsliðsins okkar í handknattleik, heimkoman sem átti alfarið að vera stutt og snúast einungis í kringum strákana "okkar". Ótrúlegasta lið var kallað upp á svið, svo LOKSINS komu strákarnir upp á svið, aðalatriðin takk fyrir pent. Gleðin skein úr andliti þeirra, og sem meira var, var andlitið á Þorgerði Katrínu eins og á lítilli stelpu sem hefði aldrei áður farið í svona risastóra bleika dótabúð. Ég var ekki alveg viss hvor var ánægðari, hún eða strákarnir. Reif þá nánast til sín og smellti rembingskossi á kinn þeirra, já, ekki hliðarkoss. Hún var sko engan veginn að spara varalitinn eða glossið!
Ég held að það hafi bjargað mér að horfa á hana þegar strákarnir hoppuðu upp á svið, því allt sem fór fram þar áður var langdregið og ég segi ekki meir.
Meginmálið er það, að í augum mér er Þorgerður Katrín manneskja, manneskja sem var skipað í það verk að standa með íþróttamönnum, og hún gerir það svo sannarlega!
Mín skoðun þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar...
Eigið góða helgi, pólitíkusar sem og anti-pólitíkusar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
28.8.2008 | 21:56
Annasamasti dagurinn minn lengi brátt á enda!
Skóladagurinn minn virtist meira fyrir hreyfingu en lærdóm - ég er að segja ykkur það!
Þið sem þekkið Hornafjörðin sjáið að þetta verður að fimmtudagsrölti Róslínar. Ég fékk reyndar far hjá mömmu í skólann, gekk þaðan yfir í Hafnarskóla og úr Hafnarskóla aftur í Heppuskóla. Gekk út á Kaffihorn, þaðan út í Nettó, í Nettó í sundlaugina og synti 26 ferðar fram og til baka að mig minnir. Gekk úr sundi í skólann, og úr skólanum í Tónskólann og þaðan út í FAS.
- Afrek dagsins voru þessvegna mörg, byrjaði í tíma sem heitir Hugmyndasmíði. Þar lærum við að koma með fáránlegustu hugmyndir á blað og ég veit þó ekki hvort þær verði framkvæmdar eður eigi. Þar fékk ég bæði hugmynd að ljósmynd - sem ég teiknaði upp á blað og skírði vel út og stuttmynd sem mig langar rosalega að framkvæma! Reyndar eru þetta tvær rosa góðar hugmyndir, finnst mér allavega. En þarna munum við læra um hugmyndasmíði allavega!
- Ég borðaði blómkálssúpu og brauð með!
- Ég fór í sund, eitthvað sem ég hef ekki gert í meira en ár, fór aldrei, ekki EINU sinni í 9. bekk, og þar af leiðandi ekki búin að klára það prófið....
- Fór í tónskólann, og var ekki að meika það, enda byrjandi!
- Ég fór í fyrsta tímann minn í framhaldsskóla, grunnteikningu sem við fengum að velja úr. Mikið erfiðara en ég hélt - ég þarf að fara í eitthvað sem við lærðum í 1. bekk. Að herma eftir stöfunum, freeekar erfitt!
Þegar heim var komið bauðst mér ekkert annað en að drífa mig á æfingu, og þegar heim var komið var haldið til lærdóms! Grunnteikning, ekki það léttasta í heimi!
Núna ætla ég að græja mig fyrir morgundaginn og fara að sofa einu sinni á Kristilegum tíma!

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.8.2008 | 17:15
Der linkshänder collegeblock
Ég er farin að hallast að því að ég þurfi alltaf að vera aðeins öðruvísi í öllu sem ég tek þátt í. Í stærðfræðitíma í dag, fyrsta skóladag minn sem 10. bekking, kvartaði ég örlítið yfir bókinni, sem er einfaldlega ekki gerð fyrir örvhenta. Blöðin annaðhvort skerast í hendurnar á mér eða þá að gormarnir geri útaf við mig.
Eva sagði mér að það væri til stílabók fyrir örvhenta. Ég fór út í búð með mömmu sem var búin að margsannfæra mig um það í gær að það væri sko til alveg hellingur af ónotuðum bókum heima, alveg fullt. Komumst að því, þar sem gormabækur eru æskilegar og annað óæskilegt, að það var til ein stærðfræðibók og ein stílabók. Sem betur fer var bara einn tími í dag sem átti að nota venjulega stílabók, þar sem að ég nennti ekki að vera að færa yfir og þessháttar.
Stærðfræðibókin kom mér til að kvarta, enda er ég þverugur kvartari sem fer í taugarnar á öllum, svo mikið er víst.
Ég fór út í búð með mömmu og keypti þar svona eindæmum fína, fína Der linkshänder collegeblock reiknibók. Reyndar ekki eins og er hér til vinstri (takið eftir því, vinstri!). Fann ekki mynd af bókinni, en þessi er mjög lík.
Ég, endalausi matargikkurinn, vitleysingurinn, barnið, listamaðurinn, áhugaljósmyndarinn, unglingurinn, áhugaleikkonan með meiru skráði mig í mat, skólamat! Loksins er verið að fara að venja litla barnið og kenna því að éta. Þó fyrr hefði mátt vera!
Við fjölskyldan komumst af því eftir 4 daga samveru, mínus Axel, getum bara engan veginn þolað hvort annað. Sædís er flutt út, Axel er hálfur heima og hér sit ég sem fastast - en á þó skammt eftir, á heildina litið a.m.k.!
Þangað til næst,
KNÚS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.8.2008 | 23:47
Spegill, spegill hermd þú mér...
Ég skrifaði þessa færslu fyrir tveimur mánuðum síðan, mig langar að birta hana hér aftur, smá innsýn í líf mitt.
Annars er ég komin heim og fer í skólann á morgun, ég komst inn í tónskólann og byrja þar á fimmtudaginn....

- Mér fannst þessi færsla ekki fá alveg nógu mikla eftirtekt.

Ég hafði aldrei viðurkennt það fyrir sjálfri mér að ég væri ekkert síðri en hinar stelpurnar í bekknum þó ég væri ef til vill þyngst, rauðhærð og með búttaðasta andlitið.
Á þessum tíma leið mér svolítið illa vegna þessara vandamála, þó svo að mér leið bara illa eftir á. Ég skildi ekki hvaða árátta það væri, að vera þyngsta stelpan í bekknum.
Ég hafði það ekkert betra en hinar stelpurnar og á þessum tíma fékk ég sjaldan ný föt og gekk bara í gömlum fötum af hinum og þessum. Enda yngst og alltaf er nú gott að nýta það sem ekki var ónýtt og ekkert mikið að.
Ég get alls ekki sagt að krakkarnir í bekknum hafi eitthvað strítt mér enda flottur hópur misflottra krakka, en þó mjög samheldur á flesta vegu. Eins og ég segi þá var mér aldrei strítt neitt svo ég viti, aldrei sagt neitt ljótt við mig, ekki beint þá.
Ég var örlítið lítil í mér, og fannst allar vinkonur mínar svo mikið sætari en ég. Þegar ég fór að eldast og já fór að hafa einhvern alvöru áhuga á strákum flutti Rafn hingað austur á Höfn. Það er nú ekki frásögu færandi hvað pilturinn var hrikalega vinsæll og féll vel í faðm bekksins. Hann hafði nú alveg auga á stelpum eins og margir vita, og var með einhverjum þeirra. En það eru nú liðnir tímar og þó.
Á einu stelpukvöldinu, eða réttara sagt morguninn eftir hringdum við í hann, annað hvort í 6. eða 7. bekk. Og spurðum hann hverjar honum þótti sætar, og það voru nefnt nöfn og hann sagði annað hvort hreint út sagt já eða nei. Þegar var spurt um mig þá fékk ég að heyra að Rafni fyndist ég sæt, og þið getið ekki ímyndað ykkur hvað mér leið vel við þetta EINA já!
Mér finnst í dag óttalega gaman að hlæja að myndunum af mér síðan ég var 8-11 ára, enda hriiiiikaleg bolla og svo tók ég alltaf sjálfsmyndir ótrúlega fersk á morgnana. Ég viðurkenni það fúslega að það er ótrúlega erfitt að festa góð móment af mér á filmu, hvað þá svona tæknivænan kubb.

Ég veit ekki hvort ég hafi lent beinlínis í einelti, því ég sagði bara já og amen við öllu því sem sagt var, ef ég spurði vinkonur mínar hvort ég fengi að vera með. Þá fékk ég oft það svar að þessi stelpa vildi ekki hafa mig svo þannig þurfti það að vera. Þegar einhverjir vildu fara út í fótbolta, en ekki ég, þá var bara skilið mig eftir einhverstaðar eina. En í öðrum tilfellum þegar einum úr hópnum vildi ekki fara, en ég vildi fara, þá var það endilega bara hætt við svo ekkert varð úr því.
Þegar einhverjir ákváðu að sofa saman, þá var oft reynt að halda því svo tilnefndu leyndu fyrir mér, og ef ég komst að því og spurði hvort ég fengi að vera með fékk ég oft ,, æ, við vorum búnar að ákveða að vera einar ".....
Yndislegur félagsskapur, I know...
Ég tala bara við þrjár vinkonur mínar í dag sem eru æskuvinkonur mínar af einhverju viti, frekar leiðinlegt, en þegar maður hentar engan veginn inn í hóp. Sem er þar af leiðandi í svona litlu hverfi sem allir þekkja alla og sjaldan kemur nýtt fólk til að kynnast, verður maður frekar útundan og eignast ekki vini fyrr en maður fer utan bæjarins. Í mínu tilfelli leita ég upp, til eldri aldurshópa sem kannski geta sett sig í spor mín. Ég er öðruvísi og ég reyni ekki að skafa ofan af því, né gera mál úr því, reyni heldur ekkert að breyta mér því að ég vil vera sú sem ég er. Ef fólki líkar ekki við mig, þá oftast nær þolir það mig ekki, en ef fólk líkar vel við mig þá þykir mér oft mjög vænt um þau.
Héðan kemur ein hrikalega flott leikkona, Ólafía Hrönn, eða Lolla eins og hún er kölluð, og hver kannast ekki við hana?
Hún gekk þessi sömu spor og ég, byrjaði í Leikfélagi Hornafjarðar og varð stórt merki í íslenskri leiklist. Ég hef oft séð hana hérna á heimaslóðum enda fallegasti fjörðurinn og fullt af indælu fólki.
Framtíðarplön mín eru að flytja héðan úr krummaskuðinu, læra eitthvað mikilsfenglegt og gera eitthvað stórt úr sjálfri mér. Því ég er öðruvísi, ég er ekki venjuleg, ég er ekki ein af þessum stelpum sem tísta yfir einhverju fáránlega ljótu ( þegar er gert lítið úr öðrum ).
Mig langar ekki að verða knattspyrnukona, þó að ég líti mjög upp til Þóru B. Helgadóttur, enda er hún einn besti kvenmarkmaður sögunnar, bæði þeirrar íslensku og alheims.
Ég hef margt annað mér til fóta lagt, svo ég ætla ekki að ganga þann veg að reyna eitthvað sem ég get ómögulega. Félagsskapurinn er ágætur, en ekki fyrir mig.
Núna er ég lít í spegilinn horfi ég á andlitið á mér og hugsa, hvað verður úr þessari manneskju. Það er framtíðarinnar að vita, og mitt að komast smátt og smátt að, ég verð að viðurkenna það að ég get ekki beðið eftir því að verða fullorðin og sinna mikilvægu starfi í samfélaginu. - Þó það sér mjög mikilvægt að eldgömlu myndirnar endist lengur, þá vil ég sinna einhverju aðeins merkilegra.
Takk fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.8.2008 | 18:39
ÁFRAM ÍSLAND!

Annars læt ég mig hverfa fram á þriðjudag, eða það held ég, Sædís sys er að flytja í bæinn í Háskóla, barnasálfræðingur ætlar hún sér að verða. Við ætlum ég og foreldrar mínir að fylgja með og ég verð skilin eftir á morgun á Menningarnótt með vinkonum mínum, Salóme og Rakel. Ætla að reyna að hitta á eitthvað fólk, m.a. kannski hana Signý vinkonu mína og "frænku".......

Þið megið endilega, kæru bloggvinir og þið sem ég þekkið pikka í mig á Menningarnótt þótt það muni reynast erfitt, en allir taka eftir mér.... ekki vera feimin!

Eigið æðislega helgi

E.S. Ég setti inn umsókn í Tónskólann, svo að nú bíð ég bara eftir svari... trommusettið er fyrir valinu

E.E.S. Ég sagði einnig upp stöðu minni til 7 ára eða eitthvað, markmannsstaðsetningu minni. Ég hætti ekki í fótbolta ( planið, Ragga sem ég sagðist geta sagt þér sko..), en ég er formlega núna byrjuð að spila úti......


Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.8.2008 | 01:18
Áhrifaríkar konur...
Ég hef alltaf verið svolítið fyrir fræga og þekkta fólkið, en það hefur dofnað með árunum, ég hef fylgst með Opruh Winfrey og hlustað á Eddu Heiðrúnu frá því ég man eftir mér. Ég lít rosalega upp til Vigdísi Finnbogadóttur útaf sömu ástæðu og svo margir aðrir, fyrsti kvenforsetinn - mig langar til að feta í fótspor hennar.
En annars er Queen Latifah uppáhalds erlenda leikkonan mín, og vel innvafin í helling af uppáhalds leikkonum, en það eru svo miklu minni líkur á því að hitta hana frekar en uppáhalds íslensku leikkonurnar mínar, þær eru margar. Enda eigum við helling af flottum leikkonum og leikurum, en ég hef nú þegar séð þær nokkrar og hitt og á eftir vonandi að leika með einhverjum.
Ég hef reynt að hafa samband við Opruh Winfrey, en enga aðra af þeim - sem kemur eflaust þeim sem þekkja mig best alveg verulega á óvart. Ég lifi í voninni að Oprah svari mér einn daginn!
Annars langar mig til að hitta svo marga, og ég ætla að reyna að hitta alla sem mig langar til að hitta í framtíðinni, ég ætla mér það.
Ég lít upp til svo margra og ég hef hitt það fólk eða mun alveg örugglega hitta á næstunni, vá hvað ég hlakka til!
Núna ætla ég að halda áfram að reyna að lifa í voninni, eða frekar að reyna að ná í Opruh - þá kannski fyrst verð ég þekkt á Íslandi

E.S: Ég fór í klippingu, plokkun og litun í dag..... svona okkar á milli

Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.8.2008 | 00:11
Af því að ég á afmæli í dag!
Vanda mig aðeins meira núna og ætla að lesa einhverja pistla eftir mig og klippa saman!
Vídjóið er komið, hír jú gó!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
19.8.2008 | 18:58
Fyrir akkúrat ári;
Trommusett..
Þannig ég fór að leita innanlands og fann þar byrjandatrommusett sem er vonandi ekki búið að selja á 20 - 25 þúsund. En það fylgdu ekki cymbalar, einhver vitur um trommusett hvað er það?
Allavega stendur í auglýsingunni að það sé af gerðinni Verve, svart á litinn, átta mánaða og lítið notað gott fyrir byrjendur.
Farin að hallast á að það sé barna trommusett, en er ekki allt of viss um það.
Ég sendi manninum e-mail og spurði hvort það væri nokkuð búið að selja það, og á eftir að fá svar við því.
En þá vaknar spurning, ætli ég komist upp með að fá að kaupa það ???
Mamma og pabbi eru ekki rosalega sammála mér um að fá mér trommusett, en ég komst upp með hamstur, ætli ég komist þá upp með trommusett?
Foreldrar eiga að styðja á bakvið börnin sín í því sem þau hafa áhuga, og þetta er hugsanlega eina hljóðfærið sem ég gæti og vill spila á þar sem að ég er svo rosalega lesblind á nótur og þessháttar vesen. Mig hefur líka lengi dreymt það að fá að spila á trommusett, ég ataðist alltaf inn í pottaskápinn hjá mömmu meðan hún var að setja í uppþvottarvélina og náði í sleifar og þóttist vera ótrúlega svalur trommuleikari

Ef svo er að það sé búið að selja trommusettið, er þá einhver sem veit um annað á svona góðu verði og vantar ekki mikið í?
En í heildina hvað segið þið um þessa pælingu?
Annars væri ég samt líka mikið til í að kaupa mér macro linsu á vélina mína, en þar sem ekkert trommusett er hér, þá er það betri kostur..
Ykkar,
Róslín Alma..
Þetta skrifaði ég fyrir akkúrat ári, tjah, ég fékk ekki trommusett í afmælisgjöf. Ég man engan veginn hvað ég fékk frá foreldrum mínum, en veit það núna og það verður eitthvað myndavéladót sem við kaupum í bænum. Annars er enginn óskalisti, ég ætla bara að vona að sem flestir muni eftir mér og ég ætla að setja inn smá vídjóblogg handa ykkur í kvöld.
Við kepptum við Víði/Reyni í dag og unnum 7-0, voða lítið að gera hjá mér í markinu. Veit ekki hvort ég þori alveg að fara með það, en það gæti verið að ég ætla að hætta í fótbolta núna eftir ágústmánuðinn..
Eftir einhverjar klukkustundir verð ég orðin 15 ára gömul, ég er bara ekki alveg viss um akkúrat hvenær, svo það má bara byrja að óska mér til hamingju eftir kl. 24.00 í kvöld

Held smá "kökuveislu" á morgun fyrir 4 vinkonur mínar og hitti Rafn annað kvöld, betri afmælisdag held ég að ég geti ekki ímyndað mér

Eigið gott kvöld, ég ætla að eyða því í að taka til!

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)