12.12.2009 | 01:37
Aðgát skal höfð í nærveru sálar - og hana nú!
Þið megið endilega hæla Facebook eins mikið og þið viljið, en ég hef séð mörg atvik þar sem meiðyrði eru notuð og ótrúlega mikil kaldhæðni í garð annarra. Ég rakst inn á mynd á ráfi mínu af stelpu, hún var ekki eins og nein af staðalímyndum dagsins í dag. Undir myndinni stóðu ótrúlega margar athugasemdir og eiginlega flestar heldur kaldhæðnislegar og ein t.d. var um það hvort að stelpan gæti ekki eitt út öllum myndunum af sér. Þetta er eiginlega bara ógeðslegt, og ég þekki fleiri svona tilvik, og þykir miður hvað fólk getur verið mikið fífl.
Fékk ábendingu frá Davíð hér í athugasemdunum hvernig maður ætti að gera print screen, svo hér fáið þið að sjá nokkur komment, þeirra til mikillar ánægju sjást engin nöfn og engar myndir.. veit ekki hvort þetta má, en mig langar bara aðeins að sýna ykkur keim af því sem ég er búin að lesa.
Þar hafiði það, þetta er ekkert djók, myndi samt gera þeim greiða með því að sýna nöfnin, en finnst það bara svo mikil skömm að geta leyft sér að koma svona fram.
Ég myndi taka "print screen" af einhverjum athugasemdunum sem eru við myndirnar hennar og sýna ykkur, ef ég væri ekki búin að færa mig yfir á MacBook og þannig vita ekkert hvort það sé yfir höfuð hægt.
Ef ég myndi lenda í þessu, þá myndi ég sýna einhverjum eldri eða jafnvel bara foreldrum mínum og þannig yrði talað við foreldra þeirra sem koma svona ömurlega fram. Takið eftir því að þar koma þau undir með fullu nafni og skammast sín ekkert fyrir að tala svona niður til fólks.
En að allt öðru, ég er í miðjum prófum, búin að taka dönsku og íslenskupróf í 103, gekk held ég bara nokkuð vel í báðum prófunum, á tvö eftir, og byrja að læra þegar ég vakna eins og enginn séu morgundagarnir.
Þar sem ég er fátækur framhaldsskólanámsmaður, þá sárvantar mig vinnu, sem ég get unnið þegar ég vil en hef ákveðin skilafrest. Ég held það sé erfitt að finna svoleiðis vinnu hérna innan sveitafélagsins, en mig vantar ofboðslega smáaura í mánuði. Ef þið vitið um eitthvað sem er laust og bíður upp á þessa möguleika (jú og það verður að vera þannig að ég geti búið hérna á Höfn..) þá megið þið láta mig vita.
Ég er vel skrifandi, hef brennandi áhuga á allskonar listum, ég tromma (hef reyndar bara verið að læra í einn og hálfan vetur), mála, teikna (ekki vel þó), elska að hlusta á tónlist, er ótrúlega hress, skapandi og er alltaf opin fyrir því að fólk komi með gagnrýni, ég get vel lagað villurnar mínar og finnst allt í lagi að orðavalinu mínu sé breytt, ég tek myndir, les bækur og þykir endalaust gaman að tala, svo má alls ekki gleyma því að mig langar mest til að verða leikkona þegar ég verð eldri (samt alveg strax líka) og ég get alveg unnið í hópum, mér þykir ekki leiðinlegt að tala við allskonar fólk og ég er yfirleitt bara mjög glöð og kát eða allavega þegar ég má til... OG munið, mig vantar bara smápening, ekkert mikið!
Athugasemdir
Mér finnst full ástæða til að "auglýsa" fólk sem misþyrmir svona öðrum. Eða er ég þá orðin of hefnigjörn. Stundum þarf að beita sömu vopnum og þeir sem pínt hafa.
Láttu allavega vita af þessu áfram, helst með nöfnunum ef þú þorir; allsstaðar sem þú ert (Fb, blog........)
Eygló, 12.12.2009 kl. 01:57
Þetta eru sko mjög mörg nöfn, allavega milli 20-30 alveg!!
Held ég fari ekki að birta þetta strax, veit ekki alveg hvernig á að fara í svona mál, held nefnilega að þeir sem ég fylgist með sem fá svona skítakomment fatti ekki kaldhæðnina..
Róslín A. Valdemarsdóttir, 12.12.2009 kl. 02:04
Er þá nokkur skaði skeður??
Sammála þér þá, með að láta kyrrt liggja. Allavega á meðan engum sárnar!
Eygló, 12.12.2009 kl. 02:25
Þetta kallast einelti Rósin mín og við verðum að segja það sem okkur finnst hvort sem er á Facebokk eða blogginu.
Knús til þín besta mín
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 12.12.2009 kl. 08:13
Því að svo leynist strengur í brjósti sem brast, bið andsvar gefið án saka. Hve iðrar margt líf eitt andartak sem aldrei verður tekið til baka.Einar Ben.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 13:47
Sumt fólk er svona. Ef einhver kemur svona fram við þig þá skaltu svara í sömu mynt en bara mun verr og hakka einstaklinginn í þig honum og öðrum til viðvörunar
Hannes, 12.12.2009 kl. 14:32
Fólk nennir víst að eyða tíma sínum í að vera með svona leiðindi á netinu. Annars er þetta bara frekar tæknilegt komment um printscreen í mac :D
Til að gera printscreen í mac ýtirðu á apple+shift+3. Ef þú vilt velja ákveðið svæði af skjánum til að geyma, ýtirðu á apple+shift+4 og þá ætti músarörin að breytast í kross, því næst velurðu svæðið, komið. Myndirnar geymast svo á desktoppinu.
Davíð (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 14:42
Þau taka pottþétt eftir því. Maður finnur fyrir þessu. Þó maður taki kannski ekkert eftir kaldhæðninni þá finnur maður alltaf fyrir einhverju á móti sér og veit ekki afhverju. Ef maður stoppar ekki svona þá hættir það aldrei. Ég er ekki að segja að þú eigir að gera það en þú ættir kannski að kommenta undir myndina og segja að þér finnist hún flott. og sýna það að það er ekki kaldhæðni.
Það var einhverntíman á facebook könnun um það hvort ein stepla væri stelpa eða strákur. Það fannst mér ömurlegt. Ókei, stelpan var með strákalega klippingu en það sást alveg að hún var stelpa. Eina ástæðan fyrir því að ég kaus var sú að ég vildi kommenta og segja hvað mér fyndist um þetta. Þar sá ég að þessi stelpa hafði kommentað þarna og að henni liði illa. Ég ákvað að senda henni personal message þar sem ég reyndi að koma með upplífgandi skilaboð og hún sendi mér til baka að henni þætti rosalega vænt um það. Það hjálpar. Góðu kommentin á síðunni minni hjálpuðu mér að lesa í gegn um leiðinlegu kommentin.
En mér finnst frábært að þú skulir veita svona hlutum eftirtekt :)
Hólmfríður Guðlaug Einarsdóttir, 12.12.2009 kl. 14:45
Mér sýnist ritari/ritarar ættu frekar að nýta tímann í að læra íslenska stafsetningu. Mun kröftugra að gera sjálfan sig að fífli, - á mergjaðri íslensku!
Styð þig.
Eygló, 12.12.2009 kl. 16:37
Ég veit ekki hvort einhverjum sárni Eygló, en ég held það samt alveg örugglega, og þetta er hrikalega mannskemmandi.. fólk verður rosalega lítið í sér eftir svona. Og ég tek undir það með þér að þau ættu að læra betri stafsetningu!
Já, ég veit vel að þetta sé einelti Milla mín, það sést langar leiðir. Ljótt einelti.
Knús
Takk fyrir þitt innlegg Hallgerður
Hannes, ég hef sem betur fer ekki lent í svona atviki. En ég myndi ekki svara í sömu mynt því ég þykist nú vita betur en það. Þetta er bara minnimáttarkennd og fólk sem gerir svona er enganveginn ánægt með sig sjálft ef það þarf að gera minna úr öðrum.
Takk kærlega Davíð!! Og vá hvað þetta er mikið betra en print screen í pc
Takk fyrir þitt innlegg Hólmfríður!
Ég veit alveg að krakkar finni fyrir þessu þó þau lesi ekki alveg á milli línanna, og ég ætla aðeins að bíða með það að vera að koma með hrós. Finnst frekar að ég eigi að senda bara póst til hennar ( er svolítið í því ef ég sé eitthvað svona einmitt).
Ég man eftir þessari könnun sem þú ert að tala um, fannst þetta ekkert smá ljótt, og held ég hafi ekki tekið þátt, ótrúlega augljóst að stelpan var stelpa en ekki strákur. En það var gott hjá þér að senda henni mail og hughrista hana - það gefur þeim sem kemur eitthvað svona fyrir svo ótrúlega mikið. Þó þau taka oftast meira inn á sig neikvæðu hlutunum heldur en jákvæðum.
OG svona málum má ekki leyna, þetta er svo ógeðslegt og svona á bara engan veginn að líða.. það er bara eitthvað stórtækt að þeim sem segja svona um fólk og það á bara eitthvað bágt með sitt sjálfstraust...
En ég verð að taka það enn og aftur fram að það voru einhverjir að kommenta á móti þeim sem sögðu svona, og ég er viss um að einhverjir voru að hjálpa henni með því að segja eitthvað fallegt.
Róslín A. Valdemarsdóttir, 12.12.2009 kl. 20:15
Ekki þyggja ekki ráð Hannesar þó hann meini vel. Málið er ekki einfalt kæra vinkona mín unga.
Ég var einu sinni á þínum aldri, sterk stelpa og kjaftfor. Það hét það þá. Ég var forhert, komin með sterka sýn á þjóðfélagið. Strax vinstri sinnuð....
En dökka hliðin mín var: Ég var gerandi..Í krafti ? Svo margs..En ég skildi það ekki þá. En sé það núna. Þakka það að hafa ekki verið svona grimm eins og við sjáum í dag..Hef fengið fyrirgefningu fólks. En sit uppi með það elsku stelpan að geta ALDREI fyrirgefið mér sjálfri.
Þú ert sterk....Og mundu: Veröld Sofiu..
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 20:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.