Færsluflokkur: Fjölmiðlar

VELVAKANDINN RÓSLÍN

Ég rak augun í Velvakandadálk í gömlu Morgunblaði. Ég les stundum Velvakandann, en þessi fékk mig virkilega til þess að hugsa. Þarna var maður, kannski strákur, kannski ungur maður, kannski maður á besta aldri og kannski gamall að nöldra yfir íþróttadagskránni sem RÚV sér um. Hinar stöðvarnar hafa tekið að sér einhverja íþróttaviðburði eins og t.d. golf.

Ég, eins og margir aðrir, fylgdist með HM eingöngu vegna þess að heima hjá mér er bara RÚV og á því tímabili var bara HM, viðtöl um HM og fréttir um HM og það sama sem hefur gengið á síðustu vikur, kreppa, kreppa, eldgos, eldgos, kreppa, eldgos, kreppueldgos.

Það sem Velvakandinn að þessu sinni var að meina, ef ég skildi hann rétt, var ekki nóg af íþróttaviðburðum á RÚV, gott væri að golfið, fótboltinn og Formúla 1 væri öll á sömu rásinni, sem allir 18 ára og eldri borga fyrir hvort sem þau horfa á stöðina eða ekki.

Þegar ég var búin að velta vöngum yfir þessu, þá fór ég að hugsa, hvað þyrfti RÚV að gera svo stöðin hentaði mér?

Mig langar að verða leikkona þegar ég verð eldri, samt þá helst strax, en æfingin skapar meistarann, og ég átti fund við eina merka leikkonu sem ég tek mér til mikillar fyrirmyndar og talaði þá við hana um hve erfitt væri að fylgjast með íslensku kvikmyndunum. Búandi á litlum stað sem þessum, þar sem ekkert bíó er og kostar heldur mikið að fara t.d. með flugi til Reykjavíkur til þess að fara í bíó á íslenskar kvikmyndir þegar þær koma út, þá missi ég hreinlega af öllum myndum.

Ég 'niðurhala' ýmsu, en ég vil helst sleppa íslensku efni. Ég kaupi kvikmyndir, geisladiska og plötur, frekar en að stela þeim, til þess að styrkja íslenska list. En nú í dag, eru svo fáar kvikmyndir gefnar út eftir sýningar í kvikmyndahúsum, að sveitalubbar eins og ég missa einfaldlega af öllu.

 Því spyr ég; hversvegna sýnir RÚV, sem er Ríkissjónvarp sem allir borga skatt fyrir, ekki íslenskar kvikmyndir og þáttagerðaraðir, frekar en að endursýna Klovn í fjórða skiptið og alla þessa dönsku þætti og heimildaþætti frá útlöndum. Það er örugglega dýrara, en íþróttaviðburðirnir eru jafnvel dýrari, uppihald á þeim sem sendir eru út til að fylgjast með, borga fyrir að fá að sýna leikina, borga þeim sem sjá um þætti sem snúast í kringum leikina og svo framvegis endalaust...

Ég nánast krefst þess að þetta verði lagað hið snarasta - og að sömu myndir verði ekki endursýndar ár eftir ár yfir jól þegar enginn hefur tíma til að horfa, og páska líka.

 
Einnig vil ég benda fólki á að ef það hefur hugmynd hvar hægt er að nálgast íslenskar myndir, gamlar sem og nýjar, má það endilega láta mig vita!

Róslín Alma Valdemarsdóttir,
framhaldsskólanemi og áhugaleikkona (þangað til hún verður alvöru leikkona)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband